Fuglaskoðunarferð..eða eitthvað annað

Við gengum sem leið lá meðfram girðingunni okkar í Bjarkatúni þar til hún endaði, þá þurfti að hoppa á þúfum að klettinum sem við fórum yfir en við höldum að hann sé klettabrú milli mýranna beggja vegna ( tekin var mynd þar sem þau sátu öll saman á brúnni). Síðan varð áfram að hoppa á þúfum og yfir einn læk áður en við komumst niður á veg. Þá gengum við eftir veginum spölkorn uns við tókum stefnuna á Breiðavog. Á leið okkar þangað varð gömul tóft á vegi okkar og skoðuðum við hana og ræddum um hvað þetta gæti verið. Við gátum nokkurnveginn ímyndað okkur hvar hurðin hefði verið og hvernig svona væri byggt en þau voru ekki sammála um hvar sjónvarpið hefði verið og til hvers þetta hús hefði verið notað. (á myndinn hér fyrir neðan má sjá krakkana sitja á það sem við héldum að væru veggir tóftarinnar. Á áfangastað hlustuðum við á fuglahljóðin og gátum heyrt í nokkrum mismunandi fuglum en mest heyrðist í æðarfuglinum en hópur blika var á sundi allir saman. Þegar við komum svo að vatninu vakti annað athygli okkar og fangaði hug okkar algjörlega þannig að fulgaskoðunarferðin gleymdist. Það voru nefnilega mjög margir dauðir kolar fljótandi í vatninu ýmist á hvolfi eða réttir. Við töldum eina 14 kola á mjög litlu svæði og þeir voru nýlega dauðir. Þetta var ansi merkilegt og gátu krakkarnir dundað við að pota í þá með njólaprikum sem þau fundu þarna í nágrenninu. Á bakaleiðinni fórum við svo gamla veginn út í leikskóla en þegar þangað var komið voru heldur betur sögur að segja kennurum og börnunum sem voru í leikskólanum enda mjög merkilegt að finna svona marga dauða kola í vatninu.
Fréttamynd - Fuglaskoðunarferð..eða eitthvað annað Fréttamynd - Fuglaskoðunarferð..eða eitthvað annað Fréttamynd - Fuglaskoðunarferð..eða eitthvað annað

Smellið á myndir til að sjá þær í stærri upplausn