Ánamaðkar

Þó rigningin sé góð þá finnst ánamöðkum hún örugglega ekkert sérstök ...alla vega ekki hér á leikskólalóðinni þar sem krakkarnir eru iðnir við að týna þá upp og leika sér með þá. Oft enda þeir lífdaga sína hér en við kennaranir reynum að kenna leim að ánamaðkarnir vilja vera í moldinni en þeir geti það ekki þegar það rignir og þeir séu nauðsynlegir fyrir gróðurinn.

Í útiverunni gefst líka tækifæri til að rannsaka ánamaðkana og í rannsóknarskyni þá tíndu þau alla þá ánamaðka sem fundust á lóðinni. Þegar búið var að telja þá reyndust þetta vera 20 ánamaðkar í allskonar stærðum. Það þurftum við auðvitað að skoða aðeins betur en erfiðlega gekk að mæla þá þar sem sumir voru á mjög miklu iði og skriðu alltaf í burtu af reglustikunni okkar. Svo lengdust þeir og styttust allt eftir því hvort þeir voru á iði eða skríðandi í burtu.

Svo var eitt barnið sem tók eftir því að sumir ánamaðkarnir voru breiðir og aðrir mjóir, sumir voru langir og aðrir stuttir. Þá var áberandi hringur utan um suma sem sást mjög vel á einhverjum, minna á öðrum og svo voru líka ánamaðkar með engan hring. Þetta var heldur betur merkilegt. Áberandi var að þeir sem voru með hringinn voru breiðari og stærri en þeir sem voru ekki með neinn hring.

Þá er mikilvægt að kenna börnunum að bera virðingu fyrir öllu lífi, líka lífi ánamaðkanna sem eru alveg jafn mikilvægir og aðrar lífverur. Við þurfum að skila þeim aftur í náttúruna þegar við erum búin að skoða þá og rannsaka og passa að þeim líði vel hjá okkur og í náttúrunni þar sem þeir eiga heima.
Fréttamynd - Ánamaðkar Fréttamynd - Ánamaðkar Fréttamynd - Ánamaðkar

Smellið á myndir til að sjá þær í stærri upplausn